Að undanförnu hefur Björn Steinbekk verið að mynda skip Síldarvinnslunnar að loðnuveiðum suður af landinu. Hann tekur bæði ljósmyndir og vídeómyndir sem sýna vel hvernig veiðarnar fara fram. Heimasíðan ræddi við Björn og spurði hann fyrst hvernig þetta verkefni væri tilkomið. „Ég kynnti þetta verkefni fyrir nokkrum fyrirtækjum í fyrra og Síldarvinnslan sýndi því strax áhuga. Mér finnst mikilvægt að kynna loðnuveiðarnar fyrir almenningi og þá er best að nota myndefni. Það er mikil fegurð sem felst í því að fylgjast með loðnuflotanum að veiðum og skynja hvernig hjálpast er að við að finna loðnuna og hve tæknin sem nýtt er við veiðarnar er fullkomin. Fólk gerir sér almennt litla grein fyrir því hvernig þessar veiðar fara fram og það er full ástæða til að kynna þær með aðgengilegum hætti. Ég hef að undanförnu tekið myndir með dróna sem stýrt hefur verið frá landi. Þegar ég hóf að taka myndirnar var ég staddur á Hnappavöllum og síðan fylgdi ég flotanum vestur eftir ströndinni. Næst tók ég myndir frá Meðalllandi, Alviðruhömrum, Dyrhólaey og loks frá Þorlákshöfn. Drónanum hefur verið flogið misjafnlega langt út. Lengst fór hann 7 km frá landi en þá varð hann líka rafmagnlaus og það þurfti að nauðlenda honum. Þetta gerðist þegar ég var að taka frá Hnappavöllum og það tók talsverðan tíma að finna hann í fjörunni. Sem betur fer missti ég hann ekki í sjóinn. Ég geri einnig ráð fyrir að fara í loðnutúr á einu Síldarvinnsluskipanna og það verður sennilega Börkur. Það er mikilvægt að taka einnig myndir um borð í skipi við veiðar til að gera því sem fram fer sem best skil. Það eru fleiri sem hafa sýnt því áhuga að fá efni frá mér og nýta það til kynningar. Ég hef áhuga á að halda áfram þessu starfi og taka þá næst fyrir botnfiskveiðar,“ segir Björn.