Eins og áður hefur verið greint frá hefur Bergur-Huginn, dótturfélag Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum, selt Vísi hf. í Grindavík togarann Berg VE og hefur hann fengið nafnið Jóhanna Gísladóttir GK. Skipið var í slipp í Reykjavík í tvær vikur og voru gerðar á því ýmsar lagfæringar. Meðal annars var togdekkið tvöfaldað, aðalvél öll yfirfarin og það málað grænt. Þá hafa skoðanir á skipinu verið framkvæmdar eins og ávallt er gert þegar skip er selt.  

Togarinn var smíðaður árið 1998 hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku og er hann 569 brúttótonn. 

Í gær var skipið afhent hinum nýja eiganda og fylgja því heillaóskir frá seljandanum. 

Frá afhendingu skipsins í gær. Talið frá vinstri: Andrew Wissler fjármálastjóri Vísis, Kjartan Viðarsson útgerðarstjóri Vísis, Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis, Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar, Guðmundur Arnar Alfreðsson útgerðarstjóri Bergs-Hugins og Arnar Richardsson rekstrarstjóri Bergs-Hugins. Ljósm. Friðrik Jón Arngrímsson.