Frystum afurðum skipað á land úr flutningaskipinu Silver Breeze í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Nú er unnið að því að skipa upp frystum uppsjávarfiski úr norska skipinu Silver Breeze í Norðfjarðarhöfn. Líklega hefur það aldrei gerst áður að frystum afurðum sé skipað þar á land úr flutningaskipi. Silver Breeze lestaði 3.300 tonn af frystri loðnu, síld og makríl frá Síldarvinnslunni og lagði af stað til úkraínsku hafnarborgarinnar Odessa við Svartahafið að kvöldi 22. febrúar sl. Kaupendur farmsins í Úkraínu voru fyrirtæki sem lengi hafa átt í afar farsælum viðskiptum við Síldarvinnsluna.

Hinn 24. febrúar réðust Rússar inn í Úkraínu en þá var Silver Breeze statt út af Skotlandi. Ljóst var að varla voru forsendur til að halda siglingunni áfram til Odessa og leitaði skipið vars við Skotland á meðan mál voru í athugun. Ekki reyndist annað unnt en að snúa skipinu við til Neskaupstaðar og kom það þangað sl. sunnudag 27. febrúar. Hafist var handa við að skipa farminum á land og mun það taka eina sex daga. Heimir Ásgeirsson, yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar, segist ekki hafa upplifað neitt þessu líkt áður. „Ég er búinn að starfa hér í 40 ár og hef aldrei áður lent í þessu. Hér hefur frystum afurðum ekki verið skipað á land úr flutningaskipi á þeim tíma sem ég hef starfað hér. Það fer allt úr skipinu inn í frystigeymslurnar á ný og ugglaust verður stefnt að því að selja þetta eitthvað annað,“ segir Heimir.

Fiskurinn sem átti að fara á borð Úkraínumanna á leið inn í frystigeymslur Síldarvinnslunnar á ný. Ljósm. Smári Geirsson