Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum á miðvikudag og aftur á sunnudag. Í fyrri túr skipanna var mest af ýsu og þorski ásamt kola en í seinni túrnum var mest af ýsu, þorski og ufsa. Skipstjórar skipanna eru afar sáttir við gang veiðanna. Jón Valgeirsson á Bergi segir að veiðin sé einfaldlega ljómandi góð. „Það er bókstaflega ekkert mál að fá ýsu og þorsk en það þarf að hafa meira fyrir öðrum tegundum. Í fyrri túrnum vorum við á Víkinni og Ingólfshöfða og þar fékkst dálítið af kola. Í seinni túrnum vorum við hinsvegar í Háadýpi og á Pétursey og þá fékkst töluvert af ufsa sem var fagnaðarefni. Það getur enginn kvartað undan aflabrögðunum og það tekur einn og hálfan til tvo sólarhringa að fylla skip eins og okkar. Við fórum út eftir löndun á sunnudag og nú erum við á Víkinni í glimrandi fiskiríi. Hér fæst ýsa og þorskur og það er hinn fallegasti fiskur,“ sagði Jón þegar rætt var við hann í gærmorgun.
Síðdegis í gær sló tíðindamaður heimasíðunnar á þráðinn til Birgis Þór Sverrissonar skipstjóra á Vestmannaey. „Við höfum gert fína túra að undanförnu og vorum þá helst að veiða á Pétursey og í Háadýpinu. Það eina sem hefur reynst erfitt er að blanda aflann eins og við viljum. Núna fórum við út á sunnudagskvöld og lentum í fínu fiskiríi en nú er komið vitlaust veður þannig að við verðum að færa okkur vestureftir. Okkur líkar bölvanlega þegar brælir svona, það teygir á túrnum og þyngir skapið,“ segir Birgir Þór.