Landað úr Eyjunum í Vestmannaeyjahöfn í gærmorgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Eyjarnar tvær, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Skipin höfðu farið út á fimmtudag og komið til hafnar á laugardag eftir að hafa aflað vel. Það er dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn, sem gerir Eyjarnar út og Arnar Richardsson rekstrarstjóri Bergs-Hugins segir að engin leið sé að kvarta undan aflabrögðum. „Hér eru menn ágætlega brattir og okkur líst vel á vertíðina. Það þykir gott að þurfa ekki tvo sólarhringa til að fylla skip eins og okkar. Þau voru að veiða hérna við Eyjarnar og aflinn var blandaður, en þessa dagana leggjum við einmitt mikla áherslu á blandaðan afla. Við erum komnir í vertíðargírinn og hér eru menn bjartsýnir,“ segir Arnar. 

Báðar Eyjarnar héldu til veiða í hádeginu í gær að löndun lokinni.