Mörg skip hafa legið í Norðfjarðarhöfn síðustu daga en þau halda nú til veiða hvert af öðru. Ljósm. Smári Geirsson

Það hefur verið þröng á þingi í austfirskum höfnum síðustu daga. Vegna veðurs hafði loðnuflotinn leitað hafnar og það gerðu einnig togarar. Nú er veðrið gengið niður og skipin halda þá til veiða hvert af öðru. Í morgun voru loðnuskipin Börkur NK, Beitir NK og Vilhelm Þorsteinsson EA að skima eftir loðnu út af Borgarfirði. Togararnir Vestmannaey VE og Bergur VE, sem legið hafa í Norðfjarðarhöfn, hafa einnig haldið til veiða og Gullver NS lét úr höfn á Seyðisfirði í gærkvöldi.

Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar, skipstjóra á loðnuskipinu Beiti, og innti hann frétta. „Héðan er heldur lítið að frétta. Þetta leit vel út í myrkrinu en skipin hérna eru þó ekkert farin að gera enn. Við höfum semsagt eitthvað séð en ekkkert aðhafst. Veðrið er gott og ölduhæðin lítil. Það er hins vegar mun verra veður sunnar,“ segir Tómas.