Skipin komin í höfn fyrir jólin. Ljósm. Hákon ErnusonSkip Síldarvinnslunnar koma þessa dagana til hafnar í Neskaupstað fyrir jólahátíðina. Beitir NK hefur reyndar ekki haldið til veiða frá því hann landaði kolmunnafarmi úr færeysku lögsögunni í byrjun desembermánaðar. Börkur NK kom til hafnar í morgun en hann hefur verið í Færeyjum að undanförnu þar sem unnið hefur verið að því að koma fyrir búnaði til að dæla afla um borð frá skut. Framkvæmdum við skutdælingarbúnaðinn er þó ekki lokið. Börkur hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni og kom með 420 tonn til löndunar. „Við fengum veður til veiða í rétt tæpan sólarhring og gátum tekið tvö hol“, sagði Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri. „Það hefur svo sannarlega verið óþverraveður í Færeyjum rétt eins og hér heima. Við þurftum aftur að halda til hafnar í Færeyjum að afloknum veiðum og biðum þar í tæpa tvo sólarhringa eftir veðri til að sigla heim“, sagði Hjörvar.

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til hafnar á sunnudagsmorgun undan veðri. Aflinn var 37 tonn en skipið hafði einungis verið um sólarhring að veiðum. Aflanum var landað í gær. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að nú séu menn uppteknir við að skreyta jólatré og búa sig undir hátíðarnar. Frystitogarinn Barði er enn að veiðum og er reiknað með að hann komi til hafnar 22. desember. Theodór Haraldsson stýrimaður sagði í samtali við heimasíðuna að ótíðin að undanförnu hefði svo sannarlega sett strik í reikninginn. „Við erum búnir að vera 15 daga í veiðiferðinni til þessa en höfum einungis verið 8 daga að veiðum. Mikill tími hefur farið í að bíða af sér óveður og síðan að sigla á svæði þar sem líklegt er að unnt sé að veiða. Við erum búnir að fá 210 tonn og er aflinn að uppistöðu til gullkarfi og ufsi. Nú erum við í Seyðisfjarðardýpinu og erum að kanna með ufsa og grálúðu,“ sagði Theodór.

Grænlenska skipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í morgun. Halldór Jónasson skipstjóri sagði að þeir hefðu haldið frá Hafnarfirði að afloknum slipp sl. sunnudag og siglt norður fyrir land. Þeir hefðu svipast um eftir loðnu en ekkert séð enda veður vægast sagt óhagstætt. Gert er ráð fyrir að Polar Amaroq muni liggja á Reyðarfirði yfir hátíðarnar. „Nú fáum við gott frí og söfnum kröftum fyrir komandi loðnuvertíð“, sagði Halldór.