Skip Síldarvinnslunnar verða öll í höfn um jólin og sum hafa þegar lokið veiðum fyrir hátíðina. Gullver NS landaði á Seyðisfirði 14. desember og fór áhöfnin þá í jólafrí. Bjartur NK er að veiðum og mun væntanlega koma til löndunar næstkomandi mánudag. Frystitogarinn Barði NK er einnig að veiðum og er ráðgert að hann komi til hafnar á sunnudag. Börkur NK er að kolmunnaveiðum við Færeyjar og mun hann koma til löndunar í Neskaupstað á laugardag.
Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey og Bergey lönduðu í heimahöfn á miðvikudag. Bæði skip munu halda til veiða á ný á laugardag en koma til löndunar á mánudaginn. Þá er gert ráð fyrir að þau fari í stuttan túr á milli jóla og nýárs.