Frá Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonFrá Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonSkip Síldarvinnslunnar verða öll í höfn um jól og áramót. Uppsjávarskipin þrjú, Börkur, Beitir og Bjarni Ólafsson, lönduðu öll kolmunna 14. – 19. desember og munu ekki halda til veiða á ný fyrr en á nýju ári. Vestmannaeyjaskipin, Vestmannaey og Bergey, komu til hafnar 11. og 14. desember og að aflokinni löndun fengu áhafnirnar kærkomið jóla- og áramótafrí. Gullver kom síðan til löndunar á Seyðisfirði 19. desember úr síðustu veiðiferð fyrir hátíðar.
 
Frystitogarinn Blængur kom til Neskaupstaðar í dag að lokinni hálfs mánaðar veiðiferð. Afli skipsins var 370 tonn upp úr sjó og uppistaða aflans er ufsi og karfi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra byrjaði veiðiferðin á Vestfjarðamiðum vegna brælu eystra en megnið af tímanum var verið á Austfjarðamiðum. Blængur mun halda á ný til veiða 3. janúar.