Beitir NK landaði síld sl. Sunnudag. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK landaði síld sl. sunnudag.
Ljósm. Hákon Ernuson
Sl. sunnudag landaði Beitir NK 1.450 tonnum af íslenskri sumargotssíld í Neskaupstað. Í morgun kom síðan Börkur NK með 2.060 tonn og í kjölfar hans sigldi Bjarni Ólafsson AK inn Norðfjörð með 1.220 tonn. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki og spurði hvernig veiðarnar gengju. „Þetta er hálfgert nudd, en það er dagamunur á veiðinni. Síðan var hálfgerð bræla hjá okkur allan túrinn og ekki góðar aðstæður til veiða. Það er víst kominn vetur. Við vorum eina fimm daga að veiðum og fengum aflann í átta holum. Veiðarnar fóru fram 80-100 mílur vestur af Reykjanesi,“ segir Hálfdan.
 
Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni segir að afli skipsins hafi fengist í fjórum holum í Faxadýpinu. Þetta er önnur veiðiferð Bjarna Ólafssonar á íslensku sumargotssíldinni en áður hafði skipið landað 960 tonnum.