Bjarni Ólafsson AK kom með 1.800 tonn af kolmunna til Seyðisfjarðar í gærkvöldi og í morgun kom Börkur NK með rúmlega 2.100 tonn til Neskaupstaðar. Hákon EA er síðan væntanlegur til Seyðisfjarðar í kvöld með um 1.700 tonn. Í morgun var Beitir NK kominn með 2.100 tonn og var að toga.
Heimasíðan ræddi við Gísla Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, og sagði hann að kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni færi mjög vel af stað. „Hjá okkur gekk afar vel að fá í bátinn. Við fengum þessi 1.800 tonn í þremur holum og toguðum fyrst í 14 tíma, síðan í 7 og loks í 12. Það verður að segjast að þetta er góð veiði og byrjunin lofar góðu. Það var töluvert að sjá á veiðislóðinni en fiskurinn var ekki á stóru svæði. Það var prýðisveður á meðan við vorum á miðunum og það skiptir alltaf miklu máli. Fiskurinn sem fæst er líka góður og strákarnir segja að hann sé stærri en í fyrra,“ sagði Gísli.