DSC03631 2

Vindmælirinn á Berki NK fór í 55m/s í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Vegna óveðursins í nótt og í morgun hafa menn úr áhöfnum Síldarvinnsluskipanna staðið vakt í þeim en þau liggja við festar í Norðfjarðarhöfn. Fjórir til sex menn eru um borð í hverju skipi.

                Miklar kviður hafa gengið yfir hafnarsvæðið og hefur vindmælirinn í Berki NK farið upp í 55 metra í mestu rokunum. Í nótt var vindurinn austanstæður og þá var hann ekki til mikilla vandræða en með morgninum hefur hann verið að snúa sér í suðvestan og versna þá aðstæður í höfninni til mikilla muna. Um sexleytið í morgun reif Bjartur NK bryggjupolla lausan í hamagangnum og um níuleytið slitnaði landtóg á Birtingi NK. Í báðum tilvikum var brugðist skjótt við og gripið til viðeigandi ráðstafana. Skipin liggja nú með vélar í gangi og keyra upp í vindinn þegar þörf krefur.

                Gera má ráð fyrir að veðrið verði slæmt fram undir hádegi.