Um þessar mundir er unnið að því að skipta um toppa á tveimur hráefnistönkum við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri segir að það hafi verið kominn tími til að ráðast í þessa framkvæmd enda tankarnir um 60 ára gamlir og voru topparnir á þeim farnir að láta á sjá. Eggert segir að hráefnistankarnir séu þrír en ekki verði skipt um topp á þeim þriðja fyrr en síðar. Í framkvæmdinni felst að gömlu topparnir á tönkunum eru skornir af og þeir hífðir niður á jörð í heilu lagi. Nýju topparnir eru forsmíðaðir á Siglufirði í einingum. Einingarnar eru síðan settar saman á Seyðisfirði og handrið sett á áður en toppurinn er hífður í heilu lagi á tankinn. Að sögn Eggerts verður unnið við suðu á fyrsta tankinum fram í næstu viku en síðan verður byrjað á tanki númer tvö strax eftir áramótin. „Þetta er töluverð framkvæmd en það er þörf á að ráðast í hana,“ segir Eggert.