Andreas Sigurðsson bátsmaður með skjannahvíta farþegann.
Ljósm. Atli Þorsteinsson

Þegar frystitogarinn Blængur NK var á leiðinni frá Vestfjarðamiðum og austur fyrir land á dögunum tóku skipverjar eftir því að rjúpa var komin um borð. Fuglinn náðist og var reynt að gefa honum að borða og tryggja að honum liði eins vel og frekast var kostur. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að þessi farþegi hafi verið óvæntur. „Við urðum varir við fuglinn á austurleið þegar skipið var statt norður af Langanesi. Hann náðist fljótlega og við settum hann í fiskikar með neti yfir. Síðan var reynt að gefa honum að drekka og borða. Fuglinn drakk vatn en hann vildi ekkert borða af því sem við buðum honum upp á. Þegar við komum inn á Norðfjörð til löndunar slepptum við fuglinum en lengi vel vildi hann ekkert fara. Hann settist bara á spil um borð í skipinu og var þar klukkustundum saman. Loksins hélt hann þó sína leið. Þegar fuglinn kom um borð var hvöss norðanátt og það leiðir hugann að því hvort þessi fugl hafi komið frá Grænlandi. Hann var alveg skjannahvítur og fallegur. Við höfum fengið fréttir um að rjúpur hafi komið um borð í fleiri skip fyrir norðan landið og á Vestfjarðamiðum núna en ég hef ekki heyrt um svona áður. Það var skemmtileg tilbreyting að fá þennan skjannahvíta farþega um borð,“ segir Bjarni Ólafur.