Frá GdanskEins og fram hefur komið á heimasíðunni mun starfsfólk Síldarvinnslunnar halda til Gdansk í Póllandi dagana 31. nóvember og 1. desember nk. Þar mun meðal annars verða efnt til veglegrar afmælishátíðar en Síldarvinnslan verður sextug 11. desember nk. Það er Ferðaskrifstofa Akureyrar sem skipuleggur ferðina og býður hún meðal annars upp á þrjár skoðunarferðir í Gdansk. Skoðunarferðirnar eru nú komnar í sölu á netinu og er unnt að finna upplýsingar um þær á síðunni www.aktravel.is/sildarvinnslan. Á síðunni er unnt að ganga frá bókunum í ferðirnar. Þar finnst bókunarvél og leiðir hún menn áfram á öruggt greiðslusvæði. Eina sem þarf að gera er að velja hvaða skoðunarferð eða skoðunarferðir hver og einn hyggst kaupa, skrá nöfn og helstu upplýsingar um kaupanda og ganga frá greiðslu. Ef einhver vandamál koma upp við skráningu er unnt að hringja í síma 460-0600 eða hafa samband á
 
Skoðunarferðirnar eru eftirtaldar:
 
  1. Skoðunarferð um gamla bæinn í Gdansk. Farið með rútu frá hóteli og gengið um gamla bæinn með enskumælandi leiðsögumanni, en íslenskur fararstjóri verður með í ferðinni til stuðnings. Gamli bærinn er heillandi og verður margt skoðað t.d. St. Mary´s Basilica (stærsta múrsteinskirkja í heimi), Neptune styttan og gosbrunnurinn, Gullna hliðið, Artus Court og höllin í Gdansk. Þá verður gengið meðfram ánni og þannig ættu allir að fá tilfinningu fyrir þessari sögufrægu borg. Þátttakendum verður síðan skilað aftur heim á hótel en unnt verður að vera eftir í Gdansk og njóta dagsins. Mælt er með að fólk skoði Solidarity Center Museum ef það verður eftir í borginni. Verð: 3.900 kr.
  2. Safnaferð. Farið verður með rútu frá hóteli að hinu fræga safni um síðari heimsstyrjöldina, en safnið er eitt af helstu kennileitum Gdansk. Gera má ráð fyrir að skoðunarferð um safnið taki 2-3 klukkustundir. Í ferðinni verður enskumælandi leiðsögumaður og íslenskur fararstjóri til stuðnings. Þátttakendum verður skilað aftur heim á hótel. Verð: 4.900 kr.
  3. Skoðunarferð í Malbork kastalann. Farið verður með rútu frá hótelinu og Malbork kastali skoðaður. Kastalinn er einn stærsti múrsteinskastali í Evrópu og er hann skammt suðaustur af Gdansk. Það er mikil upplifun að skoða kastalann sjálfan og umhverfi hans ásamt því að hlýða á sögulegan fróðleik. Í ferðinni er enskumælandi leiðsögumaður og íslenskur fararstjóri til stuðnings. Þátttakendum verður skilað aftur heim á hótel að ferð lokinni. Verð: 4.900 kr.
 
Eru allir þeir sem hyggjast nýta þessi tilboð um skoðunarferðir hvattir til að skrá sig fyrir 20. nóvember.