Nemendur Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Eskifirði. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Á Eskifirði hófst kennsla í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sl. mánudag. Nemendur þar eru 18 talsins og koma þeir frá Eskifirði og Reyðarfirði.

Á fyrsta kennsludegi voru fyrirlestrar um útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Á öðrum degi var farið í vettvangsheimsóknir í fiskimjölsverksmiðju Eskju og netaverkstæði Egersund ásamt því að fjallað var um markaðs- og gæðamál. Í dag var fjallað um sögu fiskveiða og hlýtt á gestafyrirlesara með mikla reynslu af sjómennsku auk þess sem farið var í heimsókn um borð í uppsjávarskipið Jón Kjartansson SU. Á morgun verður efnt til spurningakeppni þar sem nemendur verða spurðir út úr námsefni skólans og þeir  undirbúnir fyrir lokaverkefni námsins. Á föstudag verður farin útskriftarferð til Fáskrúðsfjarðar og Neskaupstaðar þar sem fyrirtæki og stofnanir verða heimsóttar og ýmislegt gert til skemmtunar. Í lokin fá nemendur síðan afhent útskriftarskírteini.