Nemendur Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar á Fáskrúðsfirði. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir.Á Fáskrúðsfirði hófst skólastarf Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar sl. mánudag. Nemendur þar eru 16 talsins og þar af 1 frá Stöðvarfirði og 3 frá Reyðarfirði.

Kennslan á Fáskrúðsfirði hefur gengið vel. Fyrirlestrar hafa farið fram í húsinu Tanga en að auki hafa nemendur heimsótt hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar og uppsjávarskipið Hoffell ásamt því að fólk sem hefur mikla reynslu af störfum í sjávarútvegi hefur komið og frætt nemendur. Á morgun verður síðan farið í útskriftarferð til Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Þá verður Verkmenntaskóli Austurlands heimsóttur ásamt MATÍS og öðrum fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn í Fjarðabyggð. Í ferðinni verður einnig gert ýmislegt til skemmtunar og útskrifarskírteini afhent. Að sögn Sigurðar Steins Einarssonar, Sylvíu Kolbrár Hákonardóttur og Elvars Inga Þorsteinssonar, sem starfa við skólann og annast kennslu, hefur nemendahópurinn á Fáskrúðsfirði verið mjög áhugasamur og skemmtilegt að vinna með honum.

Nk. mánudag mun skólahald hefjast á Eskifirði en Eskfirðingar og Reyðfirðingar munu sækja skólann þar og enn er mögulegt fyrir þá að skrá sig.