Í tuttugu ár hefur verið boðið til skötuveislu á Þorláksmessu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru starfsmenn verksmiðjunnar sem sjá um veisluna og er þá vísindalegri nákvæmni beitt. Líklega er þetta eina skötuveisla landsins þar sem mæling fer fram á styrk skötunnar. Ammoníak er mælt og síðan reiknað út svonefnt TVN-gildi. Þegar TVN-gildi hráefnis í verksmiðjunni fer yfir 100 heyrist í öllum viðvörunarbjöllum en öðru máli gegnir um skötuna. Í ár mældist TVN-gildi skötunnar 627 en það er mjög hóflegur styrkur því hæst hefur gildið hjá þeim í fiskimjölsverksmiðjunni farið í 974. Skatan í ár verður því í mildara lagi, ljúf og góð.
Þeir starfsmenn verksmiðjunnar sem sjá um skötuveisluna í ár eru Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri og Ómar Sverrisson. Þeir eru nýliðar á þessu sviði en ganga bjartsýnir til verks. Miðað við veislurnar í verksmiðjunni á undanförnum árum er eitt alveg víst og það er að skötuveislan þar svíkur engan.
Tekið skal fram að hörðustu sóttvarnarreglum verður fylgt í skötuveislunni þetta árið þannig að covid mun koma í veg fyrir þá stemmingu sem áður hefur ríkt í veislunum.