"Skreiðarskemman" að aflokinni andlitslyftingu.  Ljósm. Guðlaugur Birgisson

Árið 1965 var reist mjölgeymsluhús á vegum Síldarvinnslunnar.  Um var að ræða álklætt stálgrindarhús, um það bil 60 metrar að lengd.

Þegar hlutverki hússins sem mjölgeymsluhúss lauk var farið að nýta það með öðrum hætti.  Saltfiskverkun hófst á vegum Síldarvinnslunnar árið 1968 og fór hún í fyrstu fram í umræddu húsi.  Síðan var farið að nýta húsið til skreiðarverkunar og um það leyti var byrjað að nefna það „skreiðarskemmuna“ og hefur það nafn verið merkilega lífseigt.  Árið 1976 hófst síðan síldarsöltun í „skreiðarskemmunni“ og var húsið nýtt með þeim hætti um skeið ásamt því að í því var geymd og pökkuð þurrkuð skreið vel fram yfir 1980.

 

Síðustu áratugi hefur „skreiðarskemman“ verið nýtt sem geymsla og sannast sagna var húsið mjög farið að láta á sjá og eiganda þess lítt til sóma.  Þá var tekin ákvörðun um að fjarlægja hina upphaflegu álklæðningu og klæða húsið upp á nýtt.  Nú er þessum framkvæmdum lokið og hefur „skreiðarskemman“ svo sannarlega fengið andlitslyftingu.  Húsið lítur afar vel út, skartar einkennislitum fyrirtækisins og mun án efa nýtast vel eins og það hefur gert frá árinu 1965.