Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, héldu til kolmunnaveiða í íslenskri lögsögu miðvikudagskvöldið 26. júní sl. Nauðsynlegt þótti að kanna hvort kolmunni væri genginn á miðin austur af landinu en þokkalegur afli fékkst þar á þessum árstíma í fyrra. Skemmst frá að segja var um stutta veiðiferð að ræða hjá skipunum því lítið aflaðist og komu þau í land að fjórum dögum liðnum. Að lokinni veiðiferðinni landaði Beitir 650 tonnum og Börkur 370 tonnum. Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, segir að nauðsynlegt sé á þessum árstíma að kanna hvort mögulegt sé að veiða kolmunna innan lögsögunnar. „Það er mikilvægt að veiða kolmunnann í lögsögunni og það skiptir miklu máli hvað varðar samninga við aðrar þjóðir um nýtingu stofnsins. Í þessari veiðiferð var mest veiði fyrst en aflinn fékkst þá austan við Þórsbankann. Síðan var leitað norður á Rauða torg og austur að færeysku línunni. Þetta var fulllítið sem fékkst en það getur verið fljótt að breytast og því fara bæði skipin út á ný klukkan átta í kvöld. Það verður stærstur straumur á morgun og þá gæti kolmunninn hnappað sig saman. Það þýðir ekkert annað en að vera vakandi og fylgjast með og reyna því breytingin getur gerst svo snögglega. Við erum bjartsýnir eins og alltaf og það þýðir ekkert að kvarta þó stundum þurfi dálítið að hafa fyrir því að ná góðum árangri,“ segir Hálfdan.