Polar Amaroq landar í Helguvík.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirLoðnuskipin hafa komið til Helguvíkur í nótt og í dag til að losa sig við slatta. Loðnuveiðarnar hafa ekki gengið sem skyldi að undanförnu og veðrið hefur alls ekki verið hagstætt. Birtingur NK landaði tæpum 400 tonnum í nótt og Polar Amaroq er að landa öðrum eins afla. Á eftir Polar Amaroq mun Börkur NK koma til löndunar með um 350 tonn og síðan er von á Vilhelm Þorsteinssyni EA þegar hann hefur lokið við að landa frystum afurðum.
 
Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri í Helguvík segir að með þessum afla verði um 16 þúsund tonn af loðnu komin á land í Helguvík á vertíðinni. Og hann segist vonast eftir meiru þó sumir sjómennirnir séu ekki alltof bjartsýnir á áframhaldandi veiði. „Það getur ýmislegt gerst enn“, segir Eggert og er vongóður.
 
Alls starfa á milli 20 og 30 manns við loðnuvinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni í Helguvík og við hrognavinnslu en Síldarvinnslan vinnur hrognin í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.