Landað úr Smáey VE sl. mánudagskvöld. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Smáey VE sl. mánudagskvöld.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Að undanförnu hafa togarar ekki fiskað neitt sérstaklega vel á miðunum við landið en annað slagið hafa þó komið ágæt skot. Smáey VE gerði það gott í byrjun vikunnar en þá fékk skipið fullfermi af karfa og ufsa á skömmum tíma. Heimasíðan hafði samband við Ragnar Waage skipstjóra á Smáey til að fá nánari fréttir um umrædda veiðiferð. „Við létum úr höfn í Vestmannaeyjum klukkan 4.45 á sunnudagsmorgun og komum til hafnar klukkan 8 á mánudagskvöld með fullfermi eða 70 tonn af karfa og ufsa. Aflinn fékkst í Reynisdýpinu eða suður af Hjörleifshöfða en þangað er um fjögurra tíma stím frá Eyjum. Þarna fékkst mest ufsi yfir nóttina en karfi yfir daginn og það fiskaðist býsna vel. Það hefur ekki verið neitt sérstakt fiskirí úti fyrir suðurströndinni að undanförnu en af og til gengur þetta vel. Við fórum aftur út klukkan 10 á mánudagskvöld og vorum þá í djúpkarfa á Sneiðinni sunnan við Eyjar. Þar var öllu rólegra og við lönduðum um 25 tonnum á miðvikudagskvöldið,“ segir Ragnar.
 
Það er áhöfnin á Bergey VE sem rær á Smáey um þessar mundir en hin nýja Bergey er á Akureyri þar sem verið er að ganga frá millidekki skipsins. Gert er ráð fyrir að Bergey haldi til veiða fljótlega eftir áramótin.