Fyrsti hlutinn af nýrri Vestmannaey kominn til Aukra. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonFyrsti hlutinn af nýrri Vestmannaey kominn
til Aukra. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Undir lok síðasta árs undirrituðu fulltrúar fjögurra íslenskra útgerðarfélaga samninga um smíði sjö togara hjá norsku skipasmíðastöðinni Vard. Dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum, lætur smíða tvö þessara skipa en þeim er ætlað að koma í stað núverandi Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE. Skipin sem hér um ræðir verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í þeim verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum og einnig ný kynslóð rafmagnsspila frá Seaonics. Skipin verða vel búin í alla staði og í þeim verða íbúðir fyrir 13 manns og þau munu taka um 80 tonn af ísuðum fiski í lest. Þá hefur verið vandlega hugað að orkunýtingu við hönnun skipanna. Vinnuaðstaða sjómanna verður sérstaklega höfð í huga við hönnun á vinnsludekki og öll áhersla lögð á góða meðhöndlun á fiski og öfluga kælingu.
 
Guðmundur Alfreðsson hefur fylgst með smíðinni.Guðmundur Alfreðsson hefur fylgst með smíðinni.Guðmundur Alfreðsson ,viðhaldsstjóri, er nýlega kominn frá Noregi en hann fylgist vel með öllu er lýtur að hönnun og smíði skipanna. Hann segir að nú sé smíði hafin á Vestmannaey og byrjað að efna niður í Bergey. „Skipin eru smíðuð í einingum og fer smíði þeirra fram í skipasmíðastöðinni Salthammer í Tesfjord. Þaðan eru einingarnar dregnar á pramma til Aukra þar sem þær verða settar saman og allri vinnu við smíðina verður lokið þar. Allir þættir við smíði skipanna eru boðnir út og síðan koma starfsmenn þeirra fyrirtækja sem fá verkefnin til Aukra og vinna í þeim þar. Þannig eru einstakir hlutar skipanna smíðaðir víða en öll samsetning á sér stað í Aukra auk þess sem eitt skipanna verður að öllu leyti smíðað þar. Skrokkar okkar skipa verða smíðaðir í Salthammer og settir saman í Aukra en skrokkar fjögurra skipa verða hins vegar smíðaðir í Vietnam. Þegar smíðinni í Vietnam verður lokið verða skrokkarnir fluttir þaðan til Aukra og þar verða skipin síðan fullfrágengin. Nú liggur fyrir að afhending á nýrri Vestmannaey og Bergey dregst lítilsháttar frá því sem ráð var fyrir gert. Nú er gert ráð fyrir að Vestmannaey verði afhent í maí 2019 og Bergey í júní,“ segir Guðmundur Alfreðsson.