Í skipasmíðastöð Vard í sveitarfélaginu Aukra í Noregi er unnið að smíði á nýrri Vestmannaey og Bergey fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin í Vestmannaeyjum, en Bergur-Huginn er dótturfélag Síldarvinnslunnar. Þeir Gunnþór Ingvarsson framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri Bergs-Hugins voru í Noregi í síðustu viku þar sem fundað var um smíði skipanna. Guðmundur segir að smíðin sé nokkurn veginn á áætlun og flestir verkþættir vel á veg komnir. „Í Aukra eru þrjú skip í smíðum en alls er Vard að smíða sjö systurskip fyrir íslensk fyrirtæki. Skipin sem smíðuð eru í Aukra eru Vestmannaey og Bergey ásamt skipi sem smíðað er fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. Þessi skip eru 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Tvær 400 ha aðalvélar af gerðinni Yanmar verða í skipunum og í þeim verða tvær skrúfur. Þá verða skipin einnig búin nýrri kynslóð rafmagnsspila. Í skipunum verða íbúðir fyrir 13 manns og munu þau geta komið með um 80 tonn af ísuðum fiski að landi. Ákvarðanir um val á búnaði og allt fyrirkomulag í skipunum eru teknar í samráði við útgerðirnar og verður lögð áhersla á góða vinnuaðstöðu, góða meðhöndlun á afla og góða orkunýtingu. Gert er ráð fyrir að bæði skip Bergs-Hugins verði afhent eiganda í sumar. Skrokkar skipanna eru smíðaðir í einingum og eru þær gerðar í Salthammer og síðan dregnar á prömmum til Aukra þar sem þær eru settar saman. Það er mjög faglega staðið að smíði skipanna hjá Vard og full ástæða til að vera ánægður með vinnubrögðin,“ segir Guðmundur.