Nýi Börkur tekur nót um borð í Hirtshals í gærmorgun. Ljósm. Gunnþór B. Ingvason

Nú er verið að ljúka smíðinni á nýjum Berki í Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku. Í fyrradag fór skipið í togprufu sem gekk afar vel. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra og spurði nánar út í stöðu mála. „Við fórum í togprufu í fyrradag og hún gekk eins og best verður á kosið. Við köstuðum trolli og drógum og prófuðum jafnframt allar vindur skipsins. Á sama tíma var lestarkerfið prófað – dælt í og úr lestum og löndunarbúnaðurinn var einnig prófaður. Að þessu loknu var haldið til hafnar í Hirtshals og þar var tekin nót um borð í gærmorgun. Áformað var að prófa að kasta nótinni í gær en því þurfti að fresta vegna veðurs. Haldið var á ný til Skagen og nú er áformað að prófa nótina á mánudag. Það fer ekkert á milli mála að hér er um frábært og afar öflugt skip að ræða. Við tókum smá sprett í gær á leiðinni til Skagen og þá fór báturinn í 19,2 mílur. Þetta virðist einnig vera gott sjóskip, hreyfingarnar eru flottar. Þetta lítur semsagt allt stórkostlega vel út og skipið er í sannleika sagt allt hið glæsilegasta, hlaðið besta búnaði og á örugglega eftir að reynast vel. Það er enn verið að vinna víða í skipinu og við fáum það varla afhent fyrr en í næstu viku. Þetta er allt saman mjög spennandi,“ segir Hjörvar.