Bergur VE og Vestmannaey VE mætast í innsiglingunni í Vestmannaeyjum. Ljósm. Arnar Berg Arnarsson

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum sl. sunnudag og aftur í gær. Aflinn var langmest ufsi sem fékkst á Öræfagrunni og Síðugrunni. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði nánar út í ufsaveiðina. „Það hefur verið býsna snúið að eiga við ufsann. Að undanförnu hefur oft mikið verið reynt að ná ufsanum með litlum árangri. Nú bregður hins vegar svo við að það hefur verið góð ufsaveiði hjá okkur í ágústmánuði. Við höfum hitt asskoti vel á þetta að undanförnu. Ufsinn hefur verið á afmörkuðum svæðum og veiðin hefur sjaldnast enst lengi þannig að við höfum einfaldlega verið mjög heppnir. Þessi ufsaveiði kom sér vel í lok kvótaársins og menn eru mjög sáttir við veiðina að undanförnu,“ segir Jón.

Systurskip Bergs, Vestmannaey VE, landaði í Eyjum sl. mánudag og aftur í gær. Afli skipsins var blandaður í báðum veiðiferðum og var fiskað á Breiðamerkurdýpi, Öræfagrunni, Síðugrunni, Reynisdýpi, Ingólfshöfða og Víkinni. Að sögn Egils Guðna Guðnasonar skipstjóra hafa aflabrögð verið þokkaleg en veðrið misjafnt. Í fyrri túrnum var samfelld blíða en í þeim síðari var breytilegt veður og um tíma hundleiðinlegt. Þegar rætt var við Egil Guðna í gær sagði hann að kvótaárið væri búið að vera gott og nú í lok ársins væri fullt tilefni til að fá sér steik og rauðvín.