Birtingur NK liggur nú í Neskaupstað og hefur legið þar síðan loðnuvertíð lauk. Hann fer í slipp til Akureyrar 6. maí og þá verður skipið meðal annars málað hátt og lágt. Verktíminn í slippnum er áætlaður þrjár vikur. Síðan verður skipinu lagt annaðhvort á Seyðisfirði eða Reyðarfirði og þar mun það bíða næsta verkefnis. Í fyrra lá skipið á Seyðisfirði og önnuðust starfsmenn Síldarvinnslunnar þar eftirlit með því.
Eins og lesendum þessarar síðu er kunnugt hét Birtingur áður Börkur og hefur skipið verið í eigu Síldarvinnslunnar í 40 ár. Skipið hefur ávallt verið einstakt happa- og aflaskip en nú má segja að það sé einungis gert út þegar kvóti er það mikill að önnur uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, eiga í erfiðleikum með að ná honum. Síldarvinnslan festi kaup á nýjum Berki í febrúar 2012 og þá fékk sá gamli nafnið Birtingur. Þegar nýi Börkur kom stóð loðnuvertíð yfir og var kvótinn það ríflegur að Birtingur hélt áfram loðnuveiðum. Á því ári fiskaði skipið alls 34.205 tonn af loðnu áður en því var lagt. Birtingur hóf síðan á ný loðnuveiðar í febrúarmánuði s.l. og á nýliðinni vertíð bar hann 15.134 tonn að landi.