Stærsta skip sem komið hefur til Norðfjarðarhafnar. Ljósm. Berglind Lilja GuðlaugsdóttirÁ sunnudagsmorgun kom skipið Wild Peony sem á heimahöfn í Panama til Norðfjarðar til að lesta rúmlega 3000 tonn af frystum makríl. Makrílinn mun skipið flytja til Nígeríu. Skipið er 150 metrar að lengd og stærsta skip sem komið hefur inn í Norðfjarðarhöfn. Guðlaugur Birgisson hafnarstarfsmaður greindi heimasíðunni frá því að vel hefði  gengið að koma skipinu inn í höfnina og að bryggju. „Við notuðum hafnsögubátinn Vött og björgunarbátinn Hafbjörgu við þetta verk og gekk það vel, enda algjör blíða þegar skipið kom,“ sagði Guðlaugur. „Við hefðum sennilega ekki getað tekið á móti þessu skipi ef ekki hefði verið búið að stækka höfnina, en framkvæmdir við stækkunina eru langt komnar og höfnin orðin miklu rýmri en áður,“ sagði Guðlaugur að lokum.

Gert er ráð fyrir að lokið verði við að lesta skipið í Neskaupstað á miðvikudag.