Blængur NK að veiðum á Halamiðum. Tignarlegur borgarísjaki í baksýn.
Ljósm. Magnús Ríkarðsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að aflokinni 37 daga veiðiferð. Skipið millilandaði 6. ágúst, einnig í Neskaupstað. Afli skipsins var um 750 tonn upp úr sjó að verðmæti 437 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Við veiddum á Austfjarðamiðum og síðan á Halanum. Túrinn gekk vel og það var gott veður allan tímann. Við veiddum mest grálúðu fyrir austan og náðum einum 210 tonnum af henni. Á miðunum fyrir vestan var aflinn blandaður. Það voru tignarlegir borgarísjakar á Halamiðum og þeir settu svo sannarlega svip á umhverfið. Þarna var til dæmis jaki sem var um 30 metra hár en það þýðir að hann hafi náð eina 900 metra niður. Þetta er stærsti túr Blængs á Íslandsmiðum. Það eru einungis Barentshafstúrar sem hafa verið stærri.,“ segir Bjarni Ólafur.

Blængur mun halda til veiða á ný á föstudagskvöld.