Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri Fjarðanets fræðir nemendur um veiðarfæragerð.  Ljósm. Margrét ÞórðardóttirSjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar hóf á ný störf í dag eftir vel heppnaða verslunarmannahelgi. Þessi dagur var helgaður útgerð Síldarvinnslunnar. Karl Jóhann Birgisson rekstrarstjóri útgerðarsviðs fyrirtækisins hóf daginn með stuttum fyrirlestri um útgerðina og skipakostinn. Fór hann meðal annars yfir allan þann fjölda stofnana og fyrirtækja sem Síldarvinnslan er í samstarfi við vegna skipanna. Þá var haldið inn í höfn og farið í heimsóknir um borð í uppsjávarveiðiskipið Beiti NK og ísfisktogarann Bjart NK. Skipstjórar og vélstjórar tóku á móti hópnum um borð í skipunum og fræddu nemendur um tækjabúnað, veiðarfæri, vélbúnað og starfsaðstöðu skipverja. 

Undir lok síðustu viku hlýddu nemendur á fyrirlestra um ýmsa þætti eins og til dæmis starfsmannamál, gæðamál, markaðsmál  og fleira. Þá var farið í heimsóknir til Fjarðanets, Vélaverkstæðis G. Skúlasonar, Verkmenntaskóla Austurlands og Matís.

Skólinn leggur áherslu á fjölþætta fræðslu og góða kynningu á störfum innan sjávarútvegsins. Þá er mikilvægt að nemendur átti á sig á fjölbreytni starfanna og þeim menntunarkröfum sem gerðar eru til starfsmanna.

Skólinn mun starfa út þessa viku og þá daga sem eftir eru verður nemendum boðið upp á fróðlega fyrirlestra og gagnlegar heimsóknir í vinnslustöðvar Síldarvinnslunnar. Þá munu nemendur einnig sinna hópavinnu en hóparnir vinna verkefni tengd sjávarútvegi.