Norðfirskir nemendur Sjávarútvegsskólans skoða karfa hátt og lágt.
Kennslu í Sjávarútvegsskólanum lauk í Neskaupstað sl. föstudag. Alls útskrifuðust 16 nemendur þar, en skólinn hefur verið vel sóttur það sem af er sumri. Kennsla í skólanum hófst á Höfn í Hornafirði hinn 13. júní sl. og síðan lá leiðin til Vopnafjarðar og þaðan til Seyðisfjarðar. Neskaupstaður var næstur í röðinni og að kennslu þar lokinni kemur röðin að Eskifirði og loks Fáskrúðsfirði.
Það var Síldarvinnslan sem hafði frumkvæði að stofnun skólans árið 2013 en síðan færði hann út kvíarnar og var þá kennt í Fjarðabyggð og einnig á Seyðisfirði. Nú í sumar leiðir Háskólinn á Akureyri skólastarfið í samvinnu við Síldarvinnsluna og er kennt á sex stöðum eystra eins og fram kom hér að framan. Sjávarútvegsskólinn er samvinnuverkefni Háskólans á Akureyri og sex sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi: Síldarvinnslunnar, Eskju, Loðnuvinnslunnar, Gullbergs, HB-Granda og Skinneyjar-Þinganess. Þá eru vinnuskólar sveitarfélaganna þátttakendur í samstarfinu þar sem nemendur þeirra sækja Sjávarútvegsskólann í eina viku á launum í stað þess að sinna hefðbundnum störfum í vinnuskólunum.
Vettvangsheimsókn í Matís í Neskaupstað
Sjávarútvegsskólanum er ætlað að veita nemendum úr sjávarbyggðum og nágrannabyggðum þeirra, sem eru að hefja nám í 9. bekk grunnskóla á næsta skólaári, fjölbreytta fræðslu um þessa grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Lögð er áhersla á fjölbreytni starfa í greininni og tengdum greinum svo og menntunarmöguleika. Aðalkennarar í skólanum í sumar eru Kristófer Leó Ómarsson og Unnur Inga Kristinsdóttir en þau eru bæði nemar í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri. Þá sinna heimamenn á hverjum stað einnig kennslu.
Frá heimsókn í netagerð Egersunds á Eskifirði
Þau Kristófer og Unnur eru ánægð með skólastarfið hingað til. Þau segja að nemendur séu áhugasamir og að fullyrða megi að mikil þörf sé á fræðslu á þessu sviði. Vettvangsheimsóknir séu mikilvægur hluti skólastarfsins og þær veiti nemendum innsýn í allan þann fjölbreytileika sem einkennir sjávarútveginn. Farið sé í heimsóknir í bolfiskvinnslu, uppsjávarvinnslu, fiskimjölsverksmiðju, netagerð, fiskiskip, fiskmarkaði og á rannsóknastofu Matís svo eitthvað sé nefnt. Eins er farið vandlega yfir gæðamál, öryggismál og markaðsmál.
Að sögn Kristófers og Unnar er gert ráð fyrir að víkka út skólastarfið á næsta ári og hefja þá einnig kennslu í sjávarbyggðum á Norðausturlandi.