Síldarvinnslan hf. er nú eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og byggir starfsemi sína á yfir hálfrar aldar reynslu í fiskvinnslu og útgerð. Fyrirtækið er hið umsvifamesta á Íslandi á sviði veiða og vinnslu á uppsjávartegundum og stærsti framleiðandi á fiskimjöli og lýsi á landinu.

 

Starfsemi Síldarvinnslunnar og hlutdeildarfélaga er á fimm stöðum á landinu auk Bandaríkjanna og Grænlands. Veiðiheimildir fyrirtækisins eru 32.400 þorskígildistonn á árinu 2014 og starfsmenn 270 talsins. Ársveltan á árinu 2013 nam 194 milljónum Bandaríkjadala.

 

Síldarvinnslan starfrækir fullkomið fiskiðjuver í Neskaupstað sem sérhæft er til vinnslu á uppsjávarfiski. Þá á og rekur fyrirtækið þrjár vel búnar fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur; í Neskaupstað, í Helguvík og á Seyðisfirði. Þá gerir Síldarvinnslan út þrjú uppsjávarskip, einn frystitogara og einn ísfisktogara frá Neskaupstað og tvo ísfisktogara frá Vestmannaeyjum. Þá á fyrirtækið hlutdeild í útgerðarfyrirtæki á Akranesi.

 

Síldarvinnslan starfrækir stærstu frystigeymslur landsins í Neskaupstað og rúma þær samtals 20.000 tonn. Einnig er þar rekin ísverksmiðja á vegum fyrirtækisns.