Aldís Stefánsdóttir er einn þeirra starfsmanna Síldarvinnslunar sem hjólar í vinnuna. Ljósm. Hákon Ernuson

Enn eitt árið gefst starfsfólki Síldarvinnslunnar kostur á að gera samgöngusamning við fyrirtækið en þetta er í fimmta sinn sem slíkur samningur er í boði. Slíkur samningur getur gilt allt tímabilið frá 1. maí til 31. október eða hluta af því tímabili. Í samgöngusamningi felst að viðkomandi starfsmaður fer gangandi eða hjólandi í vinnuna að minnsta kosti fjóra daga í hverri viku og fær þá styrk að upphæð 10.000 kr. á mánuði. Samgöngustyrkurinn er undanþeginn skatti.

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, segir að starfsmönnum sem geri samgöngusamning hafi farið fjölgandi ár frá ári. Leggur hann áherslu á að slíkur samningur sé ávinningur fyrir viðkomandi starfsmenn og einnig fyrir fyrirtækið. Starfsmennirnir bæti heilsuna og fái umbun fyrir og fyrirtækið njóti heilbrigðara starfsfólks. Þá beri að hafa í huga að samningurinn stuðli að minnkandi bílaumferð og bættu umhverfi.

Þeir starfsmenn sem óska eftir því að gera samgöngusamning við fyrirtækið skulu snúa sér til stjórnenda á viðkomandi vinnustað eða til starfsmannastjórans. Fyrir liggur að sjómönnum gefst ekki kostur á að gera samgöngusamning vegna eðlis starfa þeirra en þeir eru að sjálfsögðu hvattir til að hyggja að heilsu sinni og stunda góða og holla hreyfingu.