Hópurinn staddur í Götu við minnismerkið um Þránd í Götu.
Ljósm. Ómar Bogason

Í síðustu viku hélt 28 manna hópur starfsmanna frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði í skemmtiferð til Færeyja með Norrænu. Hópurinn dvaldi á hóteli í Þórshöfn frá fimmtudegi til mánudags og naut lífsins þar ásamt því að fara í frábærar skoðunarferðir um eyjarnar. Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihússins, segir að ferðin hafi verið frábærlega vel heppnuð. „Á laugardeginum fórum við í skemmtilega skoðunarferð í rútu. Það var rigning þennan dag en það skipti engu máli því allir voru með glampandi sól í sinni. Á leið okkar til baka til Þórshafnar ókum við í gegnum ljósum prýdd 11,2 km. neðansjávargöng með hringtorgi sem tengja saman Straumey og Austurey. Það var ævintýri líkast. Meirihluti hópsins hafði ekki komið til Færeyja áður og það var heilmikil upplifun að heimsækja eyjarnar fallegu og frændur okkar sem eru með eindæmum gestrisnir. Á þriðjudagsmorgun var síðan stigið á skipsfjöl og aldan var stigin nokkuð brött á leiðinni heim til Seyðisfjarðar með Norrænu. Fullyrða má að allir ferðalangarnir hafi notið ferðarinnar einstaklega vel,“ segir Ómar.

Seyðfirðingar skoða sig um í Gjógv. Ljósm. Ómar Bogason