Nemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju.   Ljósm. Ómar BogasonNemendur og kennari íslenskunámskeiðsins á Seyðisfirði. Ólafía Þ. Stefánsdóttir kennari er fremst fyrir miðju. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir er erlendum starfsmönnum fiskvinnslustöðvar Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði boðið upp á íslenskunámskeið. Alls sækir 21 starfsmaður námskeiðið og eru þeir frá níu þjóðlöndum. Kennari á námskeiðinu er Ólafía Þ. Stefánsdóttir. Ólafía segir að hún hafi aldrei haft svona fjölbreyttan nemendahóp á námskeiði fyrr en námskeiðið lofi hins vegar góðu. „Nemendurnir eru hreint frábærir í alla staði og afar áhugasamir um að ná tökum á íslenskunni,“ sagði Ólafía. „Við förum hægt yfir námsefnið og notum tímann einnig til að fara í leiki og æfa nemendurna í að tala saman á íslensku. Þetta hristir hópinn saman og gerir allt námið skemmtilegra. Mér þætti tilhlýðilegt að nýta fjölbreytileikann í hópnum og efna til einhvers konar þjóðahátíðar í lok námskeiðsins og þá myndu nemendurnir kynna sitt heimaland. Við eigum nefnilega að nýta okkur þennan fjölbreytileika og fræðast líka af þeim. Ég hlakka svo sannarlega til að vinna áfram með hópnum og vona innilega að þau læri að bjarga sér á íslensku,“ sagði Ólafía að lokum.

Námskeiðið er alls 20 kennslustundir og mun því ljúka um mánaðamótin mars-apríl.