Síldarvinnslan hf. stefnir á skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland hf. 27. maí nk. Mánudaginn 10. maí nk. hefst almennt hlutafjárútboð félagsins og stendur til kl. 16:00 miðvikudaginn 12. maí nk. Í útboðinu verða boðnir til sölu þegar útgefnir hlutir að nafnverði 448 milljónir en heimilt verður að stækka útboðið um 51 milljón hluta gefi umframeftirspurn tilefni til. Í lýsingu félagsins sem birt var þann 3. maí sl. vegna fyrirhugaðrar skráningar kemur fram að félagið áformar að afhenda allt að 3,3 milljónir eigin hluti til starfsmanna félagsins, sem nemur allt að 0,19% af útgefnu hlutafé félagsins.

Stjórn Síldarvinnslunnar hf. hefur samþykkt að afhenda starfsmönnum félagsins framangreinda eigin hluti samhliða fyrirhuguðu hlutafjárútboði og verður miðað við útboðsgengi sem mun liggja fyrir að loknu útboðinu.

Gunnþór Ingvason forstjóri segir eftirfarandi um samþykktina: „Með þessari aðgerð vill stjórn Síldarvinnslunnar hf. þakka starfsmönnum fyrir vel unnin störf hjá félaginu og undirstrika þann mikla styrk sem felst í öflugu starfsfólki, mikilvægi þeirra í velferð og árangri félagsins til framtíðar.“

Nánari útfærsla á afhendingu hlutanna til starfsmanna verður birt starfsmönnunum á vinnustöðum þeirra.

Ljósm. Þorgeir Baldursson