Líneik Haraldsdóttir og Sylvía Kolbrá Hákonardóttir |
Í tilefni þess að fryst hafa verið 15.000 tonn af loðnu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað það sem af er vertíðinni voru tveir starfsmenn þess teknir tali. Starfsmennirnir eru Líneik Haraldsdóttir og Sylvía Kolbrá Hákonardóttir.
Líneik hefur starfað hjá Síldarvinnslunni
frá 1985 og komst svo að orði:
Ég hef upplifað gríðarlegar breytingar á starfstíma mínum hjá Síldarvinnslunni. Ég hóf störf við saltfisk- og skreiðarverkun en með tímanum hefur vinnsla á uppsjávarfiski sífellt orðið mikilvægari hjá fyrirtækinu. Fyrstu hausskurðarvélarnar sem notaðar voru við síldarsöltun eru í fersku minni og síðan hefur tæknivæðingunni fleygt fram. Í gamla frystihúsinu var verið að frysta 60-70 tonn á sólarhring en nú frystum við yfir 500 tonn. Þrátt fyrir þessa afkastaaukningu hefur starfsmönnum fækkað mikið.
Áður fyrr var vinnan þrælerfið og vinnuaðstæður oft ekki góðar en nú eru störfin miklu léttari vegna tæknivæðingar.
Í fiskiðjuverinu er unnin vaktavinna og hún getur verið þreytandi á álagstímum. Þegar álagið er mest skiptir starfsandinn miklu máli og sem betur fer er andinn góður á vinnustaðnum.
Auðvitað vega launin þungt hjá okkur starfsfólkinu og við fáum góð laun fyrir mikla vinnu. Á loðnu- og síldarvertíðum greiðir fyrirtækið myndalegan bónus ofan á tímakaup og allt starfsfólkið hefur síðan fengið launauppbót tvisvar á ári. Ég tel að fyrirtækið geri afar vel við starfsfólk sitt en auðvitað ætti dagvinnutaxti verkafólks að vera miklu hærri.
Þegar við náum markmiðum eins og að setja met í loðnufrystingu samgleðjast allir hjá fyrirtækinu og mér finnst við alveg hafa efni á því að fyllast stolti.