Valdimar O. Hermannsson rekstrarstjóri FSN og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri SVN undirrituðu samninginn að viðstöddum nokkrum starfsmönnum skrifstofu SVN. Ljósm. Smári GeirssonÍ dag, gamlársdag, var undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað (FSN) þeim að kostnaðarlausu. Síldarvinnslan mun greiða allan kostnað vegna speglananna og að auki færa sjúkrahúsinu að gjöf nýtt speglunartæki að verðmæti 3 milljónir króna. Mun nýja tækið gera sjúkrahúsinu betur kleift en áður til að sinna almennri þjónustu á þessu sviði.

Hafa ber í huga að ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbamein á Íslandi  og afar mikilvægt að efla forvarnir gegn þessum skæða vágesti.

Umræddur samningur er viðbót við samning um heilsufarsskoðun starfsmanna Síldarvinnslunnar sem verið hefur í gildi frá árinu 2010. Samkvæmt þeim samningi sér Fjórðungssjúkrahúsið um að boða starfsmenn fyrirtækisins til almennrar heilsufarsskoðunar þriðja hvert ár en þeir starfsmenn sem náð hafa 60 ára aldri eða eru í skilgreindum áhættuhópi eru kallaðir til skoðunar árlega.

Það voru þeir Valdimar O. Hermannsson rekstrarstjóri Fjórðungssjúkrahússins og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem undirrituðu samninginn fyrr í dag. Að undirritun lokinni hafði Gunnþór eftirfarandi um málefnið að segja: „Þessi samningur um ristilspeglanir er viðbót við fyrri samning um heilsufarsskoðanir starfsmanna Síldarvinnslunnar og nýr áfangi á þeirri leið að efla forvarnir á sviði heilbrigðismála. Ég tel að fyrirtæki eins og okkar eigi að leggja mikla áherslu á öryggismál og heilsu starfsfólksins því ekkert fer á milli mála að starfsfólkið er helsta auðlind þess. Heilsa og öryggi skiptir okkur öllu máli. Þá er einkar ánægjulegt að með því að styrkja sjúkrahúsið með gjöfum á tækjabúnaði er möguleiki til að efla forvarnir gegn krabbameini öllum Austfirðingum til heilla. Við eigum að sameinast um að efla heilbrigðisþjónustuna og hyggja að bættri heilsu allra. Umræðu um auknar forvarnir þarf að taka með það að markmiði að ná enn betri árangri en hingað til“.