Lísa Margrét Rúnarsdóttir og Elísabet Líf Theodórsdóttir á vinnlsudekki Blængs NK. Ljósm. Hreinn Sigurðsson.
Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar sl. laugardag að aflokinni 26 daga veiðiferð. Að sögn Theodórs Haraldssonar skipstjóra var fyrstu dagana verið að veiðum fyrir austan land en síðan haldið vestur og mest veitt á Halanum og Deildargrunni. Aflinn í veiðiferðinni var 534 tonn upp úr sjó, mest ýsa og ufsi. Aflaverðmætið er 192 milljónir þannig að hásetahlutur er rétt tæpar tvær milljónir króna. Í veiðiferðinni var fjölbreyttri framleiðslu sinnt en vörunúmerin reyndust vera 68 talsins þegar haldið var í land.
Það er ekki algengt að konur séu í áhöfnum íslenskra togara en í þessari veiðiferð voru tvær stúlkur um borð í Blængi. Önnur þeirra, Lísa Margrét Rúnarsdóttir, var að fara í sína þriðju veiðiferð á Blængi, en hún fór í tvær á árinu 2018. Hin stúlkan, Elísabet Líf Theodórsdóttir, var að fara í sína fyrstu veiðiferð. Lísa Margrét er 21 árs að aldri en Elísabet er 18 ára.
Tíðindamaður heimasíðunnar fór og ræddi við þær Lísu og Elísabetu þegar Blængur lagðist að bryggju skömmu fyrir hádegi sl. laugardag. Voru þær stöllur hinar hressustu en báðar höfðu þær alla veiðiferðina unnið á vinnsludekkinu. Töluðu þær um að það hefði verið gott að vera tvær saman um borð innan um 24 karlmenn þó alls ekki væri neitt yfir þeim að kvarta.
Lísa Margrét segir að hún búi að þeirri reynslu sem hún aflaði sér um borð í Blængi í fyrra, þó hver veiðiferð hafi sín sérstöku einkenni. „ Í fyrra var ég á skipinu frá því í ágúst og fram í október. Seinni túrinn var 40 dagar og mér fannst hann vera dálítið langur. Þá vann ég bæði í vinnslunni og úti á dekki og það var mikil og góð reynsla fyrir mig. Fyrir Blængstekjurnar í fyrra fór ég í heimsreisu og heimsótti 15 lönd í byrjun þessa árs. Það var alveg stórkostlegt og víkkar sjóndeildarhringinn. Í þessum túr var ég í vinnslunni allan tímann. Stundum er sú vinna einhæf og dálítið erfið. Það getur tekið á að standa í 8 tíma og snyrta ýsu. En þetta eru störf sem allir um borð vinna af metnaði – allir leggjast á eitt um að vinna vel og ná sem mestum verðmætum út úr aflanum. Auðvitað eru dagarnir miserfiðir, en sumum finnst hvað erfiðast að vera fastir um borð í skipi í misgóðu sambandi við umheiminn. Það er yndislegt að lokinni vakt að geta farið í heita pottinn og slappað hressilega af. Að lokinni langri veiðiferð eru menn ósköp fegnir að vera komnir í land, en mín reynsla er sú að eftir 3-4 daga í landi er manni farið að langa út á sjó á ný. Það er eitthvað heillandi við þetta starf og andinn um borð skiptir þá miklu máli. Yfirleitt eru allir um borð í Blængi hreint dásamlegir við mann. Þess er vandlega gætt að manni líði vel. Ég þekki auðvitað marga úr áhöfninni frá því í fyrra og nýt þess vel. Mér finnst afar líklegt að ég sækist eftir því að komast aftur um borð í Blæng síðar, en nú bíða mín önnur spennandi verkefni,“ segir Lísa Margrét.
Fram kom í spjallinu við Lísu að eftir örfáa daga muni hún halda til Slóvakíu og hefja þar nám í læknisfræði. Hún hefur áður lokið tveimur árum í hjúkrunarfræði og mikið starfað á heilbrigðisstofnunum. „Það skiptir miklu máli fyrir mig tekjulega að hafa fengið þennan túr á Blængi því launin fyrir hann jafngilda fjögurra mánaða starfi á sjúkrahúsi,“ segir Lísa Margrét.
Blængur NK kemur til hafnar sl. laugardag. Ljósm. Anna Bergljót Sigurðardóttir.
Eins og fyrr greinir var Elísabet Líf að fara í sína fyrstu veiðiferð og því lá beint við að spyrja hvort hún hefði lengi haft áhuga á því að fara á sjó. „Ég held ég hafi verið 16 ára þegar ég tilkynnti fólki það að ég ætlaði mér að reyna að komast á sjó þegar ég næði 18 ára aldri. Ég hef vanist því að hlusta á umræður um sjómennsku enda er pabbi skipstjóri á Blængi. Það höfðu ýmsir litla trú á því að ég myndi standa mig á sjónum og það gerði mig enn ákveðnari í að prófa sjómennskuna. Loksins kom að því að það gafst tækifæri til að fara túr á Blængi og ég greip það og sé ekki eftir því. Fyrstu dagarnir voru dálítið erfiðir og ég var smásjóveik en sjóveikin rjátlaðist fljótt af mér og þá varð allt betra. Ég vann allan túrinn við snyrtingu á fiski og það er dálítið einhæf vinna og þreytandi og því er mikilvægt að geta slappað af á frívöktum og þar gegnir heiti potturinn um borð lykilhlutverki. Stundum var svolítið erfitt að vakna á vaktina og það þurfti að venjast vaktavinnunni um borð. Ég hafði ekki mikið hugsað fyrirfram um það hvernig væri að koma inn í samfélagið um borð í svona skipi, en staðreyndin er sú að strákarnir tóku afar vel á móti mér og svo var líka gott að hafa Lísu í túrnum. Strákarnir eru ofboðslega ljúfir og góðir, en þeir bulla mikið og það er staðreynd að bullið jókst eftir því sem leið á túrinn. Það var afar skemmtilegt að upplifa sjómennskuna og ég get svo sannarlega hugsað mér að fara aftur. Þetta gefur mér ákveðna reynslu og er lærdómsríkt ásamt því að tekjurnar eru hreint út sagt frábærar og bæta sumarhýruna með byltingarkenndum hætti,“ segir Elísabet Líf.
Elísabet Líf er að hefja sitt þriðja ár á náttúrufræðibraut í Verkmenntaskóla Austurlands og næstu mánuðirnar verða helgaðir náminu.
Blængur mun halda kvenmannslaus til veiða á ný annað kvöld.