Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, er sjötugur í dag. Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1973 og lauk stýrimannaprófi árið eftir. Hann hóf nám í verkfræði við Háskóla Íslands árið 1974 og lauk síðan námi í skipaverkfræði frá Tækniháskólanum í Þrándheimi í Noregi árið 1980. Þorsteinn starfaði sem verkfræðingur hjá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja á árunum 1980-1981 og síðan sem framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur á árunum 1981-1983. Árið 1983 tók hann þátt í kaupum á útgerðarfélaginu Samherja og hefur síðan verið forstjóri þess.

Samherji hefur vaxið og dafnað undir stjórn Þorsteins og er án efa eitt af öflugustu fyrirtækjum íslensks atvinnulífs. Samherji hefur byggt upp starfsemi erlendis og er almennt álitið á meðal framsæknustu sjávarútvegsfyrirtækja.

Samherji eignaðist fyrst hlut í Síldarvinnslunni eftir að Síldarvinnslan var skráð í Kauphöll Íslands árið 1994 og er nú stærsti hluthafinn. Þorsteinn Már tók sæti í stjórn Síldarvinnslunnar árið 2001 og hefur hann verið stjórnarformaður frá árinu 2003. Störf Þorsteins á vettvangi Síldarvinnslunnar hafa verið afar farsæl og nýtur hann mikils trausts innan fyrirtækisins. Vill Síldarvinnslan senda Þorsteini innilegustu kveðjur á afmælisdaginn.