Vel heppnuðu hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar lauk sl. miðvikudag. Rúmlega tvöföld eftirspurn reyndist vera í útboðinu bæði frá almenningi og fagfjárfestum. Í kjölfar útboðsins mun fjöldi hluthafa í fyrirtækinu verða tæplega 7.000.

         Stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, Þorsteinn Már Baldvinsson, er afar þakklátur þeim áhuga sem útboðinu var sýndur. Hann segir að í reynd hafi áhuginn farið fram úr björtustu vonum. „Ég er afar ánægður með það traust sem Síldarvinnslunni var sýnt í þessu útboði og áhuginn endurspeglar þá trú sem ríkir á sjávarútvegnum sem atvinnugrein. Ég vil að sjálfsögðu bjóða alla nýja hluthafa velkomna og trúi því að framtíð Síldarvinnslunnar og íslensks sjávarútvegs sé björt. Þá er ofarlega í huga mínum þakklæti til starfsfólks Síldarvinnslunnar. Hjá fyrirtækinu hefur verið unnið hörðum höndum að undirbúningi útboðsins og skráningu fyrirtækisins í Kauphöllina. Það hefur verið gríðarlegt álag á Gunnþóri B. Ingvasyni forstjóra og hans fólki. Þá vil ég þakka Landsbankanum fyrir gott starf í tengslum við þetta verkefni. Síldarvinnslan verður skráð í Kauphöllina síðar í mánuðinum og starfsfólk fyrirtækisins má vera stolt af því að starfa hjá eina fyrirtækinu í Kauphöll Íslands sem er með höfuðstöðvar úti á landi,“ segir Þorsteinn Már.

Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður og Gunnþór B. Ingvason forstjóri. Í baksýn siglir Börkur NK inn Norðfjörð. Ljósm: Guðlaugur Birgisson