Fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson og myndatökumaðurinn Sigurjón Ólason frá Stöð 2 fóru með loðnuskipinu Beiti NK í veiðiferð sl. laugardag. Efni úr veiðiferðinni hefur þegar birst í fréttum og meðal annars var sent beint út frá miðunum. Ráðgert er að sýna meira efni frá veiðiferðinni í þættinum Um land allt sem á að fjalla um loðnuvertíðina og verður væntanlega á dagskrá í lok mánaðarins. Heimasíðan ræddi við Kristján Má og spurði hvernig hefði verið að upplifa loðnuveiðarnar. „Það var alveg stórkostlegt. Veðrið var gott og þarna vorum við á öflugasta fiskiskipi flotans bæði með tilliti til burðargetu og vélarstærðar. Það var líka tekið svo vel á móti okkur um borð. Við fórum um borð í skipið í Helguvík klukkan átta á laugardagsmorguninn og okkur var skilað þangað aftur að loknum veiðunum upp úr miðnætti þannig að ekki var um langa veiðiferð að ræða. Haldið var á miðin og veitt 5-6 mílur suðvestur af Lóndröngum og þarna var hörkuveiði. Beitir byrjaði á að dæla úr nótum Polar Amaroq og Hugins og síðan var kastað þrisvar. Í fyrsta kasti fengust 200 tonn, 680 tonn í því næsta og í síðasta kastinu voru 700 tonn. Síðan var haldið áleiðis til Neskaupstaðar með 2200 tonn með viðkomu í Helguvík. Þetta var falleg loðna sem hentar vel til hrognavinnslu, hrognahlutfallið var afar hátt,“ segir Kristján.
Kristján sagði að þessi veiðiferð markaði tímamót að því leyti að líklega hefði aldrei áður verið sent beint út frá fiskveiðum við Ísland. Þá gat hann þess einnig hvað þeir Sigurjón hefðu orðið hrifnir af öllum aðbúnaði um borð í skipinu. „Þarna um borð er allt svo hreint og fínt og hver og einn úr áhöfninni hefur sína svítu,“ segir Kristján að lokum.