Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergur VE komu bæði með fullfermi til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags og var aflanum landað þar á sunnudagsmorgun. Skipstjórarnir, Bergur Þór Sverrisson á Vestmannaey og Ragnar Waage Pálmason á Bergi, voru ánægðir með veiðiferðina. Í viðtali við þá kom fram að tekið hefði sólarhring að fylla skipin á Ingólfshöfðanum. „Veðrið var hundleiðinlegt en það var smágluggi á Ingólfshöfðanum og túrinn gekk í reyndinni alveg frábærlega upp. Aflinn er þorskur og ýsa, fínasti vertíðarfiskur,“ segir Birgir Þór. Ragnar segir að bæði skip hafi lagt af stað til heimahafnar eða Þorlákshafnar en mönnum hafi ekki litist á blikuna. „Veðrið var kolvitlaust og eftir að hafa siglt í eina þrjá tíma var skipunum snúið við og haldið til Neskaupstaðar. Það var hagstæðara að landa þar upp á að koma fisknum frá okkur.“
Gert er ráð fyrir að skipin bíði af sér veðrið í Neskaupstað og haldi til veiða á ný á miðvikudagskvöld.