Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.100 tonn af síld og hófst vinnsla á aflanum strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist. „Við fengum þetta sunnarlega í Héraðsflóanum. Það var töluvert af síld að sjá þarna og það hefur víða orðið vart við síld hér austur af landinu. Þetta er góð síld sem um er að ræða – stór og falleg demantssíld. Aflinn fékkst í fjórum holum og það er reynt að draga stutt. Mér líst ágætlega á framhaldið. Það lítur allt út fyrir að þetta verði fínasta vertíð,“ segir Sturla.