DSC03249

                Dragnótabáturinn Geir ÞH hefur verið að ýsuveiðum á Norðfjarðarflóa og fjörðunum sem ganga inn úr flóanum að undanförnu. Sigurður Kristinsson skipstjóri segir að óvenju líflegt sé á þessum slóðum miðað við árstíma. „Hér er býsna mikið af síld á ferðinni og það lóðaði á síld inn allan Norðfjörð fyrr í dag. Þá er líka mikið um átu. Við fáum nokkrar síldar í hverju kasti og þetta er stór og falleg síld. Ég hef ekki kannað það sérstaklega en það kæmi mér ekki á óvart að hér sé um norsk-íslenska síld að ræða. Við reyndum fyrir okkur í Viðfirði og þar fengum við eingöngu þorsk sem var fullur af síld. Síldinni fylgja hvalir og hér voru tvö stórhveli í flóanum í morgun,“ sagði Sigurður.