Beitir NK að landa í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK kom til löndunar með rúmlega 700 tonn sl. laugardag. Aflinn var að mestu síld en hún var þó blönduð makríl. Síldin var flökuð og fryst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og gengur vinnslan vel. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra fékkst síldin í Norðfjarðar- og Seyðisfjarðardýpi og gengu veiðarnar ágætlega. „Þetta er stór og falleg síld og það virðist vera töluvert af henni á þessum slóðum,“ sagði Tómas.

Börkur NK kom síðan til löndunar í gær með 750 tonna afla, mestmegnis síld.  Beitir og Bjarni Ólafsson eru á miðunum þegar þetta er skrifað. Upplýsti Tómas rétt í þessu að Beitir væri nú að veiðum í Reyðarfjarðardýpinu og allt gengi eins og í sögu.