Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum í gær. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði frétta af aflabrögðum og veðri.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að túrinn hafi verið fínn fiskilega. „Það er hins vegar annað mál hvað veðrið varðar. Það var kolvitlaust veður allan túrinn en við vorum á Höfðanum og á Breiðamerkurdýpinu. Aflinn var langmest þorskur, stór og gullfallegur. Síðan var aðeins af ýsu og ufsa. Það er verið að skoða hvenær verður farið út á ný. Í sannleika sagt er spáin algert ógeð,“ segir Birgir Þór.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, var ánægður með veiðiferðina. „Við vorum á Ingólfshöfðanum allan tímann og þar var fínasta kropp. Aflinn var langmest stór og góður þorskur. Það eina sem skyggði á var veðrið. Það var í reynd hundleiðinlegt, haugasjór og allt upp í 30 metrar. Þetta var bara skítaveður. Við förum út í dag klukkan eitt eftir hádegi. Spáin er svipuð fyrir helgina en veðrið gæti farið að skána upp úr því,“ segir Ragnar.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson