Síðasta vika var býsna stór hjá Vísi hf. í Grindavík. Líklega er um að ræða þriðju stærstu viku ársins hjá félaginu, sem er hluti af Síldarvinnslusamstæðunni. Í gegnum frystihús félagsins fóru 294 tonn og 233 tonn í gegnum salthúsið þannig að unnin voru í vikunni samtals 527 tonn að sögn Andrésar Óskarssonar sem annast aflastýringu hjá Vísi. Andrés segir að í mars hafi verið ein svipuð vika en stærsta vikan hafi verið í febrúar þegar unnin voru 535 tonn í vinnslum félagsins. Andrés segir að vinnslan gangi vel og aflabrögð séu góð. “Við erum að fá nóg af fiski til vinnslu og fiskurinn er mjög góður. Í síðustu viku var tekið á móti afla frá Fjölni, Sighvati, Páli Jónssyni og Jóhönnu Gísladóttur og einnig frá línubátunum Sævík og Daða. Þetta eru skip Vísis en að auki kom afli frá Vestmannaeyjatogurunum Bergi og Vestmannaey. Tíðin í síðustu viku var góð og öll skip voru með fullfermi. Þetta er í reynd eins gott og það getur verið og staðreyndin er sú að það hefur verið fínasta fiskirí í allt haust. Í október var afli okkar skipa 2.115 tonn og í síðustu viku var heildarafli skipanna yfir 100 tonn alla daga. Þá hafa skipin fært góðan fisk að landi sem hentar vel fyrir vinnslurnar. Meðalþyngd þorsksins er um þrjú kíló og ýsunnar rúm tvö kíló. Það gerist ekki mikið betra. Hér liggur bara vel á mönnum og allt gengur vel þrátt fyrir að jörð hristist,” segir Andrés.