Gullver NS kemur til hafnar á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til hafnar á Seyðisfirði í dag.
Ljósm. Ómar Bogason
Ísfisktogarinn Gullver NS kemur til Seyðisfjarðar í dag eftir stutta veiðiferð. Aflinn er um 45 tonn og uppistaða hans er þorskur, ýsa og ufsi. Heimasíðan sló á þráðinn um borð og ræddi við Steinþór Hálfdanarson stýrimann. „Við munum landa í dag eftir þessa stuttu veiðiferð, eða stubb eins og slíkar veiðiferðir eru nefndar. Ástæða þess að veiðiferðin er styttri en venjulega er þorrablót Seyðfirðinga sem haldið verður með pompi og pragt annað kvöld. Áhöfnin ætlar að sjálfsögðu að njóta skemmtunarinnar. Það hefur verið þokkalegasta veiði hjá okkur frá áramótum. Við erum nú að landa í fimmta sinn á árinu og aflinn er orðinn um 450 tonn. Við höfum verið að veiðum á okkar hefðbundnu miðum eða frá Berufjarðarál og norður í Seyðisfjarðardýpi. Almennt má segja að árið byrji bara vel,“ segir Steinþór.