Frystitogarinn Blængur NK sigldi inn á Norðfjörð í blíðunni í gær að lokinni vel heppnaðri veiðiferð. Skipið lá út á firðinum í gærdag þar sem það var þrifið hátt og lágt en löndun hófst eftir hádegi í dag. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Þessi veiðiferð gekk vel, held ég að óhætt sé að segja. Við fórum út að kvöldi 21. mars þannig að veiðiferðin var 21 dagur höfn í höfn. Almennt aflaðist vel og við komum með stútfullt skip. Aflinn er 675 tonn upp úr sjó eða 21.000 kassar að verðmæti 150 milljónir. Uppistaða aflans er djúpkarfi, gullkarfi og gulllax en einnig er dálítið af ufsa, ýsu og þorski. Við byrjuðum á að reyna við grálúðu hérna fyrir austan en fiskuðum okkur síðan suður eftir. Eftir það vorum við mest á suðvesturmiðum; Selvogsbanka, Skerjadýpi og Fjöllunum. Aflinn var jafn og góður allan túrinn og veðrið var að mestu prýðilegt. Við fengum einn bræludag. Það má segja að þetta hafi verið fínasti túr og það er í sjálfu sér ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Theodór.
Ráðgert er að Blængur haldi til veiða á ný síðdegis á föstudag